Elsku besta polpettan mín

10/11/2016

Ítalska orðið “polpetta”, var upphaflega notað yfir kjötbollur og líklegt að orðið vísi til “polpa” sem er safaríkasti hluti kjötsins og oft var notaður í bollugerðina. Í tímans rás, hefur merking þessa krúttlega matarorðs breikkað og í dag er það notað sem samheiti yfir “polpette” eða bollur úr hinu ýmsa hráefni öðru en kjöti, t.d. fiski, hrísgrjónum, grænmeti, kartöflum ofl. ofl. Orðið polpetta eitt og sér úr hvaða hráefni sem hún kann að vera, kallar munnvatnið fram og tilhugsunin um litlar snarkandi bollur, heitar í sósu eða kaldar með ídýfu æsir upp bragðlaukana. Hvort sem þær eru steiktar eða ofnbakaðar, úr kjöti, fiski eða grænmeti, þá eru polpette auðveldar í undibúningi og fallegar og girnilegar til að reiða fram við ólíkustu tilefni. Þær eru tilvalinn pinnamatur, sem forréttur eða aðalréttur með salati. Polpette (bollur í fleirtölu) eru alltaf krúttlegar og ilmandi, réttur sem ánægjulegt er að njóta einnig vegna þægilegrar munnbitaáferðar þeirra ekki síður en innihalds. Það má í raun búa til polpette-bollur úr nánast hvaða hráefni sem er. Eina sem þarf er að saxa hráefnið smátt, blanda einhverju saman við sem bindur, t.d. eggi og ferskum brauðraspi ásamt kryddi að vild.