17/09/2014
Haustið er gjöfull árstími og fallegur í sínum ótal litbrigðum, sem endurspeglast síðan í hráefni þess. Rótargrænmeti, ber, epli, vín og ólífur eru meðal þess hráefnis sem kemur upp í hugann er við hugsum um haustmat almennt. Á Íslandi er lambakjöt og villibráð náttúrlega ofarlega á haustmatarlistanum. Kólna tekur í lofti og veturinn smýgur gegnum hausthúmið hægt og bítandi. Upplagt er að ylja sér með ríkulegum salötum, súpum, pott- og ofnréttum og „hita sig upp“ fyrir kólnandi tíð. „Comfort food“ er lykilorðið þessa mánuðina, eða „huggumatur“ eins og þessi skemmtilega tegund rétta hefur verið nefnd á íslensku. Réttir sem „hugga“ okkur á einhvern hátt (hér erum við að tala um holla huggurétti náttúrlega, en ekki að detta ofan í nammiskálina eða snakkpokann) og veita sálarró, gjarnan réttir úr barnæsku sem vekja upp góðar minningar. „Hugguréttir“ eru gjarnan ríkulegir og saðsamir, t.d. er hafragrautur dæmi um þekktan „comfort food“- rétt. Spaghetti með kjötbollum, kraftmiklar núðlusúpur með kjúkling, grilluð ostasamloka, bakaðar kartöflur með smjöri, pizzur, hægeldaðir ofn- og pottréttir sem og þykkar súpur eru nokkur dæmi um „vellíðunarkrásir“. Haustþemað á www.sacla.is verður á hugguréttanótum og við hefjum matardekrið með eftirfarandi uppskrift að ítalskri kartöflumúsböku, sem er einstaklega safarík og seðjandi. Kartöflur er eitt aðal hausthráefnið og þessar vítamín- og trefjaríku dúllur má matreiða á óteljandi vegu. Við erum vön að borða kartöflumúsina sem meðlæti. Hér er skemmtileg útfærsla á kartöflumús, sem ættuð er frá Napolí. Prófið ykkur áfram með ólıka osta, grænmeti og kjötvörur og búið til ykkar eigin útgáfu að þessari ástsælu ítölsku uppskrift að „gateau di patate“.
Kartöflumúsbaka með skinku, ostum og þistilhjörtum