07/12/2015
Tagliatelle og penne eru meðal ástsælustu pastaformanna, enda sérlega fjölhæfar hvor á sinn hátt og þægilegar undir tönn. Tagliatelle pastalengjurnar eru upprunnar í hjarta Emilia-Romagna héraðs og eru bæði til úr eggjablönduðu deigi „all’uovo“ og úr venjulegu deigi. Ekki er skrýtið að þessi safaríka pastategund sé upprunninn í Emilia-Romagna, en það hérað er þekkt fyrir ríkulega rétti og sósur, og einmitt sósuna sem er no. 1 sem meðlæti hinna mjúku tagliatelle, ragù alla bolognese kjötsósan ástsæla. Vinsældir tagliatelle breiddust vitanlega út um Ítalíu alla innan skamms og eru í dag ein vinsælasta pastategundin um heim allan. Tagliatelle henta með ólíkustu sósum og meðlæiti, þótt kjötsósan góða, sé það fyrsta sem kemur upp í huga margra þegar þær eru nefndar. Kjötsósur henta almennt vel með tagliatelle, en einnig fiskur, t.a.m. tagliatelle með reyktum laxi í léttri rjómasósu með skvettu af tómatpuré, svo eitthvað sé nefnt. Tagliatelle henta einnig vel með ýmsum grænmetissósum, s.s. með þistilhjörtum eða zucchini, eins frábærar með „tartufo“ og sveppum (sérstaklega kóngasveppum „porchini“). Prófið Saclà trufflupestóið með tagliatelle.
Penne er önnur ein mest notaða pastategund í heimalandinu, Ítalíu. Til eru tvær tegundir „rigate“ (með röndum í pastanu) eða „liscie“, sléttar. Þetta stutta túbulaga pasta, hentar með óteljandi sósum og meðlæti, en einföldust og klassískust er e.t.v. penne með „sugo al pomodoro“ eða „all’arrabbiata“ (tómatasósu að viðbættri blöndu af steiktum lauk og beikon og vænni drífu af þurrkuðum chillipipar). Penne henta eins og áður var nefnt með ólíkustu sósum, allt frá mjúkum grænmetissósum, rjómasósum með grænmeti eða fiski, kjötbollum og allt þar á milli. Penne henta einnig vel til gratíneringar. Prófið t.d. með klassísku pestó og smá parmesanosti, skellið mozzarellabitum og skinkusneiðum á milli og penne með parmesanosti yfir og bakið í 10 mínútur þar til osturinn er bráðinn. Börn elska þennan rétt.