03/04/2014
Það fyrirfinnst vart sá réttur í ítalskri matarmenningu, sem hefur tekist líkt og pasta að verða tákn þeirrar sömu á eins auðkennandi hátt og raun ber vitni. Gæfugengi þessa ástsæla réttar hófst í héruðum Ítalíu og varð fljótt einn vinsælasti réttur landsins og eins og við vitum hefur pastamenningin fyrir löngu afmáð öll landamæri og hlotið almenna viðurkenningu sem opinber táknmynd ítalskrar matarmenningar sem og heilbrigðs, einfalds og gómsæts mataræðis. Oft er sagt að pasta sé fitandi. Allt er best í hófi og sama á við um pasta, en í heimalandinu er almennt litið er á pasta sem „primo“ eða fyrsta aðalrétt þar sem pastaskammtur á mann er um 90g. Heilhveitipasta er minna fitandi en venjulegt pasta og eins er mikilvægt að allt pasta sé soðið rétt, eða „al dente“, veiti viðnám við tennur en sé ekki ofsoðið. Sé pasta soðið of lengi, skemmir það ánægjuna við að borða pasta og sósan eða meðlætið fer jafnvel fyrir ofan garð og neðan og hitt er að pasta soðið „al dente“, hefur lægra sykurhlutfall en ofsoðið pasta. Við pastasuðu gilda semsagt ekki sömu eldunarreglur og á steikum: „rare“, „medium“ eða „well done“. Annað hvort er pasta rétt soðið „al dente“, eða það er ofeldað, punktur og basta. Mikilvægt er að salta suðuvatnið með grófu salti um leið og pastanu er komið fyrir í vænu magni af vatni er suða kemur upp. Það fer svo náttúrlega eftir því hve sósan er einföld eða ríkuleg hve margar kaloríur eru í pastaréttinum, en það frábæra við pasta, er hvílík fjölbreytni af formum og lögun fyrirfinnast að auki hinum óteljandi matreiðslumöguleikum á þessu frábæra hráefni. Pasta er sannkallað töfrahráefni sem sómir sér vel í ólíkasta félagsskap. Kremkenndar osta- og rjómasósur, kjarnmiklar kjötsósur, sjávarfang, litríkar grænmetissósur, pestó, tómatasósur, mildar jurtasósur, kræsilegar kryddsósur…. það er sama hvar borið er niður í vali á hráefni, pasta unir sér vel í nánast hvaða félagsskap sem er. TIl að pastað njóti sín sem best og til að við njótum eins vel og hægt er að borða það í bland við hinar ólíkustu sósur og hráefni sem hugmyndaflugið blæs okkur í brjóst hverju sinni, er lykilatriðið að nota gæðapasta og sjóða það rétt.