Lax með pestó og kartöflumús

mínútur / 4-5 Fyrir: 

Undirbúningur

Lax er sannarlega vinsæll á okkar heimili og oftar en ekki ef ég spyr hvernig fiskur á að vera í matinn, er sagt „bleikur fiskur“. Þennan lax veiddi maðurinn minn í Fnjóská í ágúst síðastliðnum svo það var klárlega kominn tími til að elda hann.

Lax

 1. Hitið ofninn í 175°C.
 2. Þerrið laxaflökin og leggið á bökunarpappír.
 3. Smyrjið með vænu lagi af pestó.
 4. Rífið parmesan ost fínt niður og blandið saman við brauðrasp, dreifið yfir pestóið.
 5. Bakið í um 12-15 mínútur, kveikið þá á grillinu og bakið áfram í nokkrar mínútur þar til brauðraspið fer að gyllast.

Kartöflumús

 1. Sjóðið kartöflurnar og flysjið.
 2. Setjið þær aftur í pottinn ásamt smjöri, hvítlauk og um 100 ml af mjólk.
 3. Stappið með kartöflustappara og setjið meiri mjólk ef þurfa þykir og bætið truffluolíunni saman við.
 4. Smakkið til með salti og pipar.

Rósakál

 1. Sjóðið rósakálið samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
 2. Hellið vatninu af og bætið smjöri í pottinn, kryddið með salti og pipar.
 3. Hellið í lítið eldfast mót og setjið í ofninn með laxinum síðustu mínúturnar (á grillið) til þess að fá smá stökka húð utan á rósakálið.

Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og pestó og „parmesankröst“ ásamt kartöflumús og rósakáli passar virkilega vel með laxinum.

Innihald

 • 2 laxaflök
 • Sacla pestó „Wild Garlic“ (1 krukka)
 • 30 g ljóst brauðrasp
 • 40 g parmesan ostur
 • 4-5 bökunarkartöflur (eftir stærð)
 • 20 g smjör
 • 1-2 msk. Sacla truffluolía
 • 100-130 ml mjólk
 • 2 rifnir hvítlauksgeirar
 • Salt og pipar eftir smekk
 • 1 poki frosið rósakál
 • 20 g smjör
 • Salt, pipar og hvítlauksduft