Lefsusamloka með kjúkling, tómötum og kóríanderpestó

30 mínútur / 2 Fyrir: 

Sjóðið kartöflur, afhýðið og stappið. Blandið þeim saman við smjör, rjóma og salt og blandið því næst hveitinu saman við. Hnoðið í jafna kúlu (bætið smá hveiti saman við ef deigið er of klístrað). Pakkið deiginu því næst inn í plastfilmu og geymið í kæli í a.m.k. 3 tíma. Skiptið deiginu í 8-10 bita (eftir því hvað þið viljið hafa kökurnar þykkar) og fletjið út í þunnar kökur á létt hveitibornu borði. Steikið kökurnar á heitri pönnukökupönnu í skamma stund þar til léttristaðar en mjúkar að innan. Setjið smá smjör út á pönnu ef þarf og kökur vilja festast við pönnu. Upplagt er að frysta umframlefsurnar og grípa til í næstu samlokur.
Blandið ólífuolíu saman við krydd og rifinn sítrónubörkinn og veltið kjúklingabringunni upp úr marineringunni (gott að láta marinerast í litlum plastpoka í ca. 4 tíma). Grillið bringur á grilli eða grillpönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið þar til eldaðar í gegn. Skerið bringu í sneiðar. Skerið tvær lefsur til helminga og smyrjið tvo helminga með þunnu lagi af kóríanderpestósósunni. Leggið icebergsalatlauf ofan á og þar næst kjúklingasneiðarnar og að lokum tómatasneiðarnar. Smellið hinum lefsuhelmingunum ofan á og voilà!

Innihald

 • 2 lefsur, skornar í tvennt
 • 1 kjúklingabringa
 • 1/2 tsk þurrkað tímían
 • 1/2 tsk þurrkað óreganó
 • salt & pipar e. smekk
 • 1 tsk fínt rifinn sítrónubörkur af lífrænni sítrónu
 • 2 lítil icebergsalatlauf eða annað salat að smekk
 • 1 tómatur, niðursneiddur
 • 2 msk Saclà fresh coriander pestó sósa
 • 3 msk jómfrúrólífuolía
 • 500g kartöflur
 • 50g smjör
 • 1/2 dl rjómi eða sýrður rjómi
 • 1 tsk salt
 • 150g hveiti (og ca. 75g til að rúlla kökum út á)