Spaghetti „aglio, olio, peperoncino“

10 mínútur / 4 Fyrir: 
Spaghetti „aglio, olio, peperoncino“

Undirbúningur

Sjóðið spaghetti í vænu magni af léttsöltuðu vatni (notið gróft salt). Setjið bæði saltið og pastað út í suðuvatnið er suðan kemur upp á vatninu. Afhýðið hvítlauk og fjarlægið miðju og skerið í næfurþunnar sneiðar og saxið rauða piparinn smátt niður. Yljið hvoru tveggja í jómfrúrólífuolíunni við miðlungshita þar til hvítlaukurinn hefur tekið smá lit (gætið þess að brenna ekki). Síið spaghetti og hækkið hita á pönnu og bætið brauðraspi saman við kryddblönduna á pönnu og léttgyllið raspinn í skamma stund. Blandið spaghetti saman við kryddblöndu ásamt saxaðri steinseljunni, smakkið til með salti og yljið í 1-2 mínútur. Dreypið smá dreitil af Saclà jómfrúrólífuolíu yfir réttinn ef vill. Gott er að rífa parmesan- eða pecorinoost yfir réttinn. Berið fram á upphituðum diskum.

Þessi uppskrift er án efa ein sú einfaldasta í ítalskri matargerð og það sem öllu skiptir er að hafa eðal hráefni við höndina til að bragðgæði hins einfalda hráefnis njóti sín sem best. Það eru til nokkrar útgáfur af réttinum. Í sumum er steinselju og/eða brauðraspi sleppt og stundum eru ansjósur með í för. Osturinn út á er svo líka val. Hér er á ferðinni ríkuleg útgáfa af þessum ástsæla pastarétti sem er á allra færi að útbúa og sómir sér vel hvort sem kraftmikill kvöldmatur eftir langan vinnudag, rómantískur pastaréttur við kertaljós með glasi af þurru, friskandi og kraftmikið hvítvíni eða sem miðnætursnarl.

Innihald

  • 400 g spaghetti
  • 3 hvítlauksgeirar (magn fer eftir smekk)
  • ½-1 rauður ferskur pipar (magn fer eftir smekk)
  • 2 msk ferskt brauðrasp
  • 6 msk jómfrúrólífuolía
  • 1 msk söxuð steinselja
  • dreitill af Saclà jómfrúrólífuolíu með Chilli
  • salt